Erlent

Hryllilegt ástand í Pakistan

Engin von þykir til þess að nokkur finnist á lífi á hamfarasvæðunum í Suður-Asíu. Þegar björgunarmenn og hjálpargögn tóku loksins að berast þangað fór að rigna, og nú er það vatnsflaumur sem hamlar björgunarstarfinu. Það var fyrst seint í gær sem hjálp tók að berast á hamfarasvæðin en í dag breyttist það aftur. Úrhellisringing olli því að umferð um nýrudda vegi stöðvaðist, aurskriður féllu á þá og þyrlur gátu ekki flogið. Þetta gerir björgunarliðinu erfitt um vik og eykur enn á eymdina hjá þeim sem þarfnast hjálpar. Um leið sloknar vonin um að takist að bjarga fleirum á lífi úr húsarústum. Þeir sem geta reyna að flýja svæðið. Þar er ekkert að fá að bíta eða brenna; húsaskjól er lítið sem ekkert og þau hús sem standa eru talin hættuleg; og önnur hjálp er af skornum skammti. Þetta á ekki síst við í stærstu borginni Pakistan-megin landamæranna, Muzaffarabad, sem fyrir helgi var blómleg hundrað þúsund manna borg. Nú er þar ekkert að finna nema rústir, lík og fólk í öngum sínum. Reiði og örvænting valda því að fólk stelur nauðþurftum og áflog hafa brotist út. Mustafa Qurshi, íbúi í Muzaraffabad, sagði íbúa tilneydda til að verða sér út um bensín þar sem hvorki sé til bensín á bensínstöðvum né heldur sé hjálp að fá hjá yfirvöldum í Pakistan. "Konur okkar og börn eru heima stórslösuð og við verðum að koma þeim á sjúkrahús með öllum tiltækum ráðum," sagði Mustafa. Í bænum Balakot hrundu þrír skólar og stór hluti barnanna fórst. Þeim sem var bjargað var komið fyrir á bráðabirgðasjúkrahúsum sem komið hefur verið upp en ástandið þar er heldur ekki beisið. Eahri Rome, læknir á svæðinu, segir lækna og hjúkrunarfólk gera eins og þeir geti en þó vanti fleira fólk, gögn og lyf. Í Balakot hafa björgunarmenn einnig miklar áhyggjur af aurskriðum vegna rigningarinnar. Sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna áætla að ekki sé þörf á minna en nærri sautján milljörðum króna til hjálparstarfa á svæðinu, þar sem talið er að allt að fjörutíu þúsund hafi týnt lífi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×