Erlent

Sprengt í aðdraganda stjórnarskrár

Um þrjátíu fórust í sprengjuárásum í Írak í dag, aðeins fjórum dögum fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá þar. Stjórnarskráin átti að marka nýtt upphaf fyrir Írak, en gæti haft þveröfug áhrif. Fyrri sprengjan sprakk á markaði í bænum Tal Afar, skammt frá landamærunum að Sýrlandi. Þar féllu tuttugu og fjórir og á fjórða tug særðist. Skammt er síðan írakskar og bandarískar hersveitir hófu herferð gegn uppreisnarmönnum á því svæði. Sjálfsmorðsárás kostaði fimm lífið í vesturbæ Bagdad og þar særðust tólf. Yfirvöld ætla engu að síður ekki að láta árásir og ofbeldi hafa áhrif á framgang þjóðaratkvæðagreiðslu á laugardaginn kemur. Hryðjuverk eru þó ekki eina hættan sem ógnar stjórnarskránni: súnnítar eru enn ósáttir við hana og líta margir þeirra svo á að hún færi sjítum völdin í landinu á silfurfati. Undanfarið hefur verið reynt að miðla málum og ná sáttum en allt kemur fyrir ekki. Stjórnarskránni er ætlað að vera grundvöllur sjálfstæðs lýðræðisríkis og á að sameina Íraka, en virðist í raun geta leitt til enn frekari sundrungar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×