Erlent

Guðleg opinberun í Hvíta húsinu

George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, er sagður hafa rökstutt innrásina í Írak og Afganistan með því að hafa fengið guðlega opinberun. Hvíta húsið vísar þessu hins vegar á bug. Í sjónvarpsþætti um stjórnmálaástandið fyrir botni Miðjarðar-hafs sem sýndur verður á BBC eftir helgi heldur Nabil Saath, fyrrverandi utanríkisráðherra palestínsku heimastjórnarinnar, því fram að Bush hafi sagt þeim Mahmoud Abbas, forseta heimastjórnarinnar, á fundi sumarið 2003 að Guð hafi sagt honum að berjast við hryðjuverkamenn í Afganistan og binda enda á alræðið í Írak, svo og að útvega Palestínumönnum ríki og Ísraelum öryggi. „Það veit Guð að ég ætla að gera það." Talsmenn Hvíta hússins segja hins vegar ekkert hæft í ummælunum og þau séu algerlega úr lausu lofti gripin. Hvað sem þessu líður eru --hvorki- trúarskoðanir Bush ný tíðindi né sú sýn hans að stríðið gegn hryðjuverkum sé barátta „góðs og ills". Þetta mátti glögglega heyra í ræðu hans á fimmtudagskvöldið í Washington þar sem hann -skýrði- frá því að tekist hefði að koma í veg fyrir tíu hryðjuverkaárásir al-Kaída á Vesturlöndum síðustu misseri. Þar dró hann upp einfalda mynd af íslömskum heittrúarhreyfingum sem afli staðráðnu í að koma á trúarveldi sem „teygði anga sína frá Spáni til Indónesíu".



Fleiri fréttir

Sjá meira


×