Erlent

ElBaradei hlýtur nóbelsverðlaunin

Ákvörðunarinnar um hver fengi friðarverðlaun Nóbels þetta árið hafði verið beðið með talsverðri eftirvæntingu en 199 tilnefningar bárust nefndinni. Þar sem sextíu ár eru liðin frá kjarnorkuárásirnar á japönsku borgirnar Hiroshima og Nagasaki var búist við að verðlaunahafinn kæmi úr hópi þeirra sem vinna að kjarnorkuafvopnun. Það stóð á endum því í gærmorgun var tilkynnt um valið, venju samkvæmt í Ósló, og kom þá í ljós að Egyptinn ElBaradei og Alþjóðakjarnorkumálastofnunin hefðu hreppt hnossið. Í umsögn nefndarinnar sagði að ElBaradei væri „óttalaus baráttumaður" fyrir kjarnorkuafvopnun og starfið sem IAEA hefði unnið á undanförnum árum væri „algerlega ómetanlegt." ElBaradei, sem fyrst heyrði af tíðindunum í sjónvarpsfréttum, kvaðst afar upp með sér en jafnframt auðmjúkur yfir sæmdinni sem honum væri sýnd: „Ég tel að verðlaunin endurspegli að útbreiðsla kjarnorkuvopna sé alvarlegasta hættan sem að mannkyninu steðjar." Viðbrögðin við ákvörðun nóbelsverðlaunanefndarinnar hafa ekki látið á sér standa. Bandaríkjastjórn, sem fyrir nokkrum vikum reyndi að koma í veg fyrir að ElBaradei yrði endurráðinn í starf sitt þar sem hún taldi hann of undanlátssaman við Írana, lýsti yfir ánægju sinni. Condoleezza Rice utanríkisráðherra sagði að stjórnin myndi starfa að heilum hug með IAEA við að koma í veg fyrir útbreiðslu kjarnorkuvopna. Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og friðarverðlaunahafi, sagði að nú yrðu ríkisstjórnir heims að sýna IAEA þá virðingu sem stofnunin ætti skilda. „Ég vona að verðlaunin veki okkur öll," sagði hann við blaðamenn. Stein Tönnesson, framkvæmdastjóri Friðarrannsóknarstofnunarinnar í Ósló, lýsti hins vegar furðu sinni yfir niðurstöðu nefndarinnar þar sem IAEA hefði ekki tekist að leysa deiluna við Írana og Norður-Kóreumenn um kjarnorkuvopn heldur þvert á móti. „Verðlaunin fóru til einhvers sem hefur ekki náð árangri á árinu." Í svipaðan streng tók Hidankyo, samtök fórnarlamba kjarnorkuárásanna á japönsku borgirnar sem sögðu ákvörðunina mikil vonbrigði. Terumi Tanaka, framkvæmdastjóri þeirra, sagði IAEA samtök sem ekki hafa stuðlað að friði í heiminum. Friðarverðlaun Nóbels verða formlega afhent í Ósló 10. desember næstkomandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×