Erlent

Friðarverðlaun Nóbels afhent

Ósló varð miðpunktur allrar fjölmiðlaathygli um skamma hríð í morgun þegar formaður norsku Nóbelsnefndarinnar sté fram og tilkynnti hver hlyti Friðarverðlaun Nóbels í ár. Þau skiptast í tvennt, á milli Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar og yfirmanns hennar, Egyptans Mohammads El-Baradeis. Það ríkti sérlega mikil spenna í kringum tilkynninguna í dag því síðustu tvö ár hefur ákvörðun nefndarinnar lekið út áður en hún var tilkynnt, en svo var ekki að þessu sinni. Ole Danbolt Mjös, formaður Nóbelsnefndarinnar, greindi frá því að að nefndin hefði ákveðið að verðlaunin skiptust jafnt á milli Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar og framkvæmdastjóra hennar, Mohammads El-Baradeis, fyrir viðleitni sína til að koma í veg fyrir að kjarnorka yrði notuð í hernaðarlegum tilgangi og að tryggja að friðsamleg notkun kjarnorku væri framkvæmd á sem öruggastan hátt. El-Baradei hefur stýrt Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni síðustu átta ár á miklum umbrotatímum þar sem samningsviðræður við Írani, Íraka og Norður-Kóreumenn hafa verið í brennidepli. El-Baradei þykir hafa staðið sig með mikilli prýði í því starfi, ekki síst með því að standa fast á sínu og láta ekki undan þrýstingi, hvaðan sem hann hefur komið. Hann sagðist í dag telja að verðlaunin væru viðurkenning á mestu hættu samtímans, hættunni á útbreiðslu kjarnorkuvopna, áframhaldandi tilvist þúsunda kjarnorkuvopna og hættunni á kjarnorkuhryðjuverkum.  Verðlaunin jafngilda 82 milljónum íslenskra króna en heiðurinn er þó miklu meira virði því verðlaunin eru án nokkurs vafa ein þau virtustu í heimi og þau beina mikilli alþjóðlegri athygli að því málefni sem verðlaunin tengjast.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×