Erlent

Vill viðræður um sjálfstæði Kosovo

Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, lagði til við öryggisráð samtakanna í dag að hafnar yrðu viðræður um það hvort Kosovo-hérað skuli fá sjálfstæði eða verða hluti af Serbíu eins og héraðið var áður en átök brustust út milli Serba og Kosovo-Albana seint á tíunda áratug síðustu aldar. Tillöguna lagði Annan fram með skýrslu um málið sem norski sendimaðurinn Kai Eide vann fyrir samtökin. Sameinuðu þjóðirnar hafa farið með stjórn í Kosovo frá miðju ári 1999 í kjölfar þess að hersveitir NATO hröktu serbneskar hersveitir á brott úr héraðinu vegna gruns um ofsóknir á hendur Kosovo-Albönum sem eru 90 prósent íbúa í héraðinu. Kosovo-Albanar fara fram á fullt sjálfstæði frá Serbíu en því hafa Serbar hingað til hafnað. Ekki er ljóst hvenær viðræður um hugsanlegt sjálfstæði Kosovo á eiga að hefjast.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×