Erlent

Hvetur til vopnahlés vegna Ramadan

Einn af leiðtogum súnníta í Írak hefur hvatt til vopnahlés á milli uppreisnarmanna og hermanna í landinu í hinum helga íslamska mánuði Ramadan sem nú er nýhafinn. Saleh al-Mutlak, sem m.a. vann að drögum að nýrri stjórnarskrá fyrir Írak, sagði enn fremur að nokkrir stjórnmálaflokkar súnníta í landinu sem þekktu til uppreisnarmanna hefðu boðist til að koma á viðræðum milli þeirra og Bandaríkjamanna til þess að reyna að binda enda á hin blóðugu átök í Írak. Árásum í Írak hefur fjölgað nokkuð að undanförnu í aðdraganda kosninga um drög að stjórnarskrá landsins sem verða eftir rúma viku en óvíst er hvort Bandaríkjamenn taka þessu tilboði þar sem yfirvöld í Washington hafa áður sagt að þau semji ekki við uppreisnarmenn og að súnnítar megi ekki ná völdum í landinu með hótunum um ofbeldi. Þá hefur verið bent á að vopnahléið muni ekki ná til erlendra uppreisnarmanna á vegum al-Qaida en þeir segjast bera ábyrgð á fjölda árása undanfarnar vikur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×