Erlent

Bað Bandaríkjamenn um þolinmæði

MYND/AP
George Bush Bandaríkjaforseti bað Bandaríkjamenn að sýna þolinmæði varðandi stríðið í Írak og sagði stríð ekki vinnast án fórna. Forsetinn hefur sætt vaxandi gangrýni heima fyrir vegna ólgunnar í Írak og mannfalls í röðum Bandaríkjahers og mælist stuðningur við aðgerðir Bandaríkjanna í Írak nú aðeins 32 prósent samkvæmt könnun Gallup fyrir fjölmiðlana CNN og USA Today. Bush sagði í ávarpi í dag að íslamskir uppreisnarmenn í Írak tryðu því að með því að ná völdum í einu landi myndu þeir fá fjöldann á bak við sig og koma á fót róttækum íslömskum ríkjum allt frá Spáni til Indónesíu. Bandaríkin myndu koma í veg fyrir að slíkt gerðist með því að vera áfram í Írak. Þá varaði hann Írana og Sýrlendinga við því að styðja við bakið á hryðjuverkamönnum. Sérfræðingar telja að með ræðunni hafa Bush verið að reyna að afla sér aftur stuðnings við aðgerðirnar í Írak en þar hafa árásir verið tíðar í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu um drög að stjórnarskrá fyrir landið sem fram eiga að fara 15. október. Samkvæmt könnun CNN og USA Today telja 59 prósent Bandaríkjamanna nú að það hafi verið mistök að ráðast inn í Írak og þá vilja 63 prósent að einhver hluti herliðs Bandaríkjanna verði kallaður heim frá Írak.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×