Erlent

Spánska veikin endursköpuð

Spánska veikin, faraldur sem kostaðir fimmtíu milljónir lífið árið 1918, hefur verið endursköpuð. Vísindamenn endurlífguðu vírusinn í von um að finna vísbendingar um hvernig berjast mætti við fuglaflensu. Aðrir vísindamenn óttast að þeir hafi í raun búið til gríðaröflugt sýklavopn. Spánska veikin er einhver mannskæðasta inflúensa sem sögur fara af og það er einmitt þess vegna sem vísindamenn við rannsóknarstofu í Atlanta hafa unnið að því í níu ár að vinna vírusinn út úr lungum tveggja hermanna sem létust úr veikinni, og úr líki konu frá Alaska en hún hafði verið grafin í sífrera. Meðal þess sem vísindamennirnir hafa komist að er að spánska veikin var fuglaflensa sem stökkbreyttist og barst í mannfólk. Veiran deilir genastökkbreytingum með fuglaflensunni sem dregið hefur tugi manna til bana í Asíu undanfarin ár. Þetta þykir enn frekar undirstrika hættuna á að fuglaflensan verði að heimsfaraldri. Vísindamennirnir vonast til þess rannsóknirnar leiði til vopna í baráttunni gegn fuglaflensu. Ekki eru allir sannfærðir um að rannsóknirnar séu til góða og óttast afleiðingar þess að lífga við vírusinn sem olli spánsku veikinni. Vísindamenn, sem Reuters vitnar til, segja nánast óhjákvæmilegt að vírusinn berist út af rannsóknarstofum með hugsanlega skelfilegum afleiðingum. Aðrir telja að vísindamennirnir hafi óafvitandi skapað eitthvert skaðvænlegasta sýklavopn sem til er. Fjögur hundruð áttatíu og fjórir Íslendingar eru taldir hafa farist þegar spánska veikin barst hingað til lands 1918. Allt athafnalíf í Reykjavík lamaðist, flestar verslanir lokuðust og dagblöð hættu að koma út vegna veikinda starfsmanna. Samband við útlönd féll niður því allir starfsmenn Landsímahússins utan einn veiktust. Messufall varð og sömuleiðis féll niður sorphirða og hreinsun útisalerna. Erfitt var að anna líkflutningum og koma varð upp bráðabirgða líkhúsum. Brugðið var á það ráð að jarðsetja fólk í fjöldagrafreitum, samkvæmt því sem fram kemur á vísindavef Háskóla Íslands.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×