Erlent

Atlaga Google að Microsoft

Forstjórar tölvufyrirtækjanna Google og Sun skrifuðu undir samstarfssamning í gærkvöldi, sem tölvusérfræðingar telja að geti verið upphafið að atlögu Google að Microsoft tölvurisanum. Eric Schmidt, forstjóri Google, segir að tugmilljónir manna munu hlaða niður leitarstiku Google eftir að samstarfið hefst. Fréttirnar frá Kaliforníu komu mátulega inn á ráðstefnu Microsoft í Reykjavík í dag. Um 200 manns í tölvugeiranum voru á ráðstefnunni með yfirskriftina Hittu Microsoft. Ef Google verður að ósk sinni megum við kannski eiga von á ráðstefnu með yfirskriftina Hittu Google. Það gerist þó varla átakalaust. Sjálft samkomulagið leiðir ekki til annars en að Google leitarvélin fer á ennþá fleiri tölvur en hingað til. En til lengri tíma þykir ljóst að Google ætli að ógna Microsoft á fleiri sviðum. Þá er litið bæði til hugbúnaðar eins og Office pakkans og til leitar- og skipulagningar á upplýsingum. Hallur Þór Sigurðarson, sérfræðingur hjá Microsoft á Íslandi, segir að þrátt fyrir að við lifum í upplýsingasamfélagi og höfum mikinn fjölda upplýsinga þá gengur okkur oft erfiðlega að finna upplýsingarnar þegar við þurfum á þeim að halda. Bæði Google og Microsoft hljóta að vilja leysa þetta. Tölvusérfræðingar segja að eitt sé ljóst: Að slagurinn milli Google og Microsoft sé bara rétt að byrja.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×