Lífið

Svövuþing í Kennaraháskólanum

Rithöfundurinn og þingkonan Svava Jakobsdóttir hefði orðið 75 ára í dag. Af því tilefni var efnt til Svövuþings henni til heiðurs í Kennaraháskólanum í dag en dagskrá þingsins var helguð bókmenntum Svövu og hvernig þær geta hvatt nemendur til fróðleiksþorsta. Svava Jakobsdóttir fæddist 4. október 1930 í Neskaupsstað en fluttist á barnsaldri til Kanada. Hún var tíu ára þegar fjölskyldan fluttist aftur til Íslands en þessar bernskuhræringar milli mál- og menningarheima höfðu talsverð áhrif á Svövu og verk hennar. Námsferill Svövu var glæsilegur og starfsferill hennar fjölbreyttur. Hún vann meðal annars við kennslu, dagskrárgerð og blaðamennsku og var alþingismaður fyrir Alþýðubandalagsins í Reykjavík í átta ár. Kunnust var hún þó fyrir ritverk sín en hún skrifaði smásögur, skáldsögur og leikrit. Fyrsta verk hennar birtist á prenti þegar hún var 19 ára gömul en 15 árum seinna kom út fyrsta bók hennar " Tólf konur". Verk hennar hafa verið þýdd á fjölmörg tungumál og hún var þrisvar sinnum tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Verk hennar fjölluðu oft um konur, stöðu þeirra og hlutverk í samfélaginu enda var Svava brautryðjandi í jafnréttismálum og var meðal stofnenda Rauðsokkannna og höfðu skrif hennar áhrif á umræðuna í samfélaginu um réttindi kvenna. Svava lést 21. febrúar 2004.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.