Innlent

Slippstöðin lýst gjaldþrota

Slippstöðin hf á Akureyri hefur verið lýst gjaldþrota. Búið er að skipa skiptastjóra í bú fyrirtækisins og vonast starfsmenn til þess að launamál þeirra verði rædd á fundi með honum nú í hádeginu. Erfiðleikar hafa verið í rekstri Slippstöðvarinnar undanfarna mánuði og því var orðið ljóst nokkru fyrir helgi í hvað stefndi. Starfsmenn eru ósáttir við að þeim hafi ekki verið tilkynnt um stöðu mála fyrr en fyrir lág í hvað stefndi. Að sögn trúnaðarmanns starfsmanna, Þorsteins Haraldssonar, bíða starfsmenn Slippstöðvarinnar, sem eru um eitt hundrað talsins, þess nú að nýskipaður skiptastjóri þrotabús fyrirtækisins fundi með þeim eftir hádegið. Að sögn Þorsteins nema vangoldin laun starfsmanna fyrirtækisins nú í kringum 20 milljónum króna. Starfsmenn eru óaánægðir með að laun þeirra skuli ekki hafa verið gerð upp en Þorsteinn segir að á sama tíma og forsvarsmenn fyrirtækisins lögðu fram beiðni um gjaldþrot síðastliðinn föstudag hafi Landsvirkjun innt af hendi 40 milljón króna greiðslu til fyrirtækisins sem Landsbankinn sitji nú á, en bankinn er stærsti kröfuhafinn í þrotabú félagsins. Starfsmenn hyggjast fá svör við því á fundi sem fyrirhugaður er með skiptastjóra nú eftir hádegið hvort greiðsla Landsvirkjunar eigi ekki að ganga upp í launakröfur þeirra. Starfsmenn sem fréttastofa hefur heyrt í nú fyrir hádegi voru slegnir vegna fréttanna af gjaldþrotinu. Ekki liggur fyrir hversu háár kröfur eru úti á hendur þrotabúinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×