Innlent

Fengu ekki að segja nei

Þingmenn Frjálslynda flokksins reyndu án árangurs að þrýsta á nei-hnappinn þegar Sólveig Pétursdóttir var kosin forseti Alþingis við þingsetningu í gær. Magnús Þór Hafsteinsson segir atkvæðagreiðsluna skrípaleik. Fjörutíu og sex greiddu Sólveigu Pétursdóttur atkvæði sitt en tólf sátu hjá þegar forseti Alþingis var kosinn í gær. Magnús segir að þingmenn Frjálslynda flokksins hafi ákveðið að segja nei við kjöri Sólveigar. Þegar til átti að taka var atkvæðakerfið með þeim hætti að eingöngu var hægt að greiða kjöri hennar atkvæði eða að sitja hjá. Við þetta eru þingmenn flokksins ósáttir. Magnús Þór segir það sjálfsagðan rétt þingmanna að geta komið sjónarmiðum sínum á framfæri með því að geta sagt já, nei eða með því að sitja hjá. Magnús segir tvær ástæður fyrir því að þingflokkur hans studdi ekki Sólveigu. Fyrir tveimur árum síðan var gefið út að hún yrði forseti Alþingi og þingflokkurinn sé mjög ósáttur við að það sé gefið út með svo löngum fyrirvara hver eigi að taka við mikilvægum embættum á þjóðþinginu. Hin ástæðan er sú að Sólveig verður oft handhafi forsetavaldsins þar sem hún er forseti Alþingis og þar sem eiginmaður hennar sé flæktur í eitt stærsta olíusvindlmál sögunnar þá finnist þeim það ekki ganga. Magnús segist hafa stungið upp á því við stjórnaandstöðuna að koma með mótframboð til embættis forseta Alþingis en segir það hafa fengið litlar undirtektir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×