Erlent

Þýsku kosningunum lýkur í dag

Kosið er til þýska sambandsþingsins í borginni Dresden í austurhluta Þýskalands í dag, en kosningum þar var frestað fyrir tveimur vikum vegna dauðsfalls eins frambjóðanda frá borginni. Vonir eru bundnar við að úrslitin í Dresden muni leysa þá stjórnmálakreppu sem ríkt hefur í landinu. Kjörstaðir voru opnaðir í Dresden í morgun og verður þeim lokað klukkan fjögur í dag að íslenskum tíma, en um tvö hundruð og tuttugu þúsund manns eru á kjörskrá. Bæði Gerhard Schröder, kanslari og leiðtogi Jafnaðarmanna, og Angela Merkel, leiðtogi Kristilegra demókrata, vona að kosningaúrslitin í Dresden verði afgerandi, þannig að ljóst verði hvort þeirra verði næsti kanslari landsins. Bæði hafa gert tilkall til kanslaraembættisins frá því kosið var til sambandsþingsins, 18. september síðastliðinn. Flokkur Merkels hlaut flest atkvæði, eða þremur sætum fleiri á þinginu en Jafnaðarmenn, en hvorugum flokknum tókst þó að tryggja sér meirihluta á þinginu. Stjórnmálaskýrendur telja að úrslitin í Dresden breyti litlu um þá niðurstöðu sem þegar liggur fyrir. Líklegt þykir þó að flokkur Schröders komi betur út og bæti jafnvel við sig einu eða tveimur þingsætum, sem myndi styrkja stöðu leiðtogans í stjórnarmyndunarviðræðum. Merkel og Schröder hafa tvívegis fundað að undanförnu um möguleikann á stjórnarmyndun stóru flokkanna, en eins og staðan er núna gætu viðræðurnar tekið marga mánuði þar sem bæði Schröder og Merkel krefjast þess að fá að leiða næstu stjórn landsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×