Erlent

Tveir Malasíumenn grunaðir um ódæðið á Balí í gær

Yfirvöld á Balí á Indónesíu segja ljóst að sprengingarnar sem urðu á Kúta-strönd á Balí í gær, hafi verið sjálfsmorðssprengingar og eru tveir hryðjuverkamenn frá Malasíu grunaðir um verknaðinn. Að minnsta kosti tuttugu og sex menn létu lífið í árásunum, þar af margir ferðamenn, og um hundrað og tuttugu særðust, margir lífshættulega. Staðfest hefur verið að þrjár sprengjur hafi sprungið með stuttu millibili á kaffihúsum og áveitingastað á Kúta-strönd, en staðirnir voru fullir af fólki sem sat að snæðingi. Á annan tug manns er saknað eftir sprengjutilræðin. Yfirvöld á Indónesíu höfðu um skeið varað við því að sprengjuárásir kynnu að vofa yfir, en hryðjuverkasamtök sem báru ábyrgð á tilræðunum á Balí fyrir þremur árum, þar sem 200 manns létu lífið, höfðu hótað frekari árásum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×