Innlent

Annar með kókaínið

Kókaínið sem fannst um borð í Hauki ÍS í Bremerhaven var allt í ferðatösku yngri Íslendingsins sem situr nú í gæsluvarðhaldi í Þýskalandi. Hassið var falið í farangri þess eldri en mennirnir hafa báðir verið úrskurðaðir í sex mánaða gæsluvarðhald.

Robert Dütsch, upplýsingafulltrúi hjá tollinum í Hamborg, segir að rannsókn málsins miðist meðal annars að því að finna seljendur fíkniefnanna í Þýskalandi.

Hann vill því ekkert segja frekar um málið eins og upplýsingar sem leitt gætu til handtöku seljendanna því þannig gæfi hann þeim upplýsingar um leið. Enn er þó verið að rannsaka efnin á rannsóknarstofu þar sem fingrafara og annara vísbendinga er leitað á pakkningunum. Í samtali við Nordsee Zeitung í Bremerhaven segir Dütsch að talið sé að Íslendingarnir hafi borgað rúmar átta milljónir fyrir fíkniefnin.

Robert Dütsch segir þýska tollinn fylgjast sérstaklega með ferðum skipa og flugvéla til Íslands, Noregs, Svíþjóðar og Finnlands þar sem verðlag sé almennt mjög hátt í þessum löndum. Hann segir að til þessara landa sé reynt að smygla tóbaki, áfengi og fíkniefnum.

Skipstjóri Hauks ÍS í Þýskalandsferðinni hlaut fangelsisdóm í Suður Ameríku árið 1997 fyrir að vera með fjórtán kíló af kókaíni. Hann fékk tuttugu mánaða dóm og þurfti að sitja inni í tíu mánuði. Þá átti að þingfesta ákæru á hendur honum, í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær, fyrir að hafa tæplega 180 kannabisplöntur í sinni vörslu. Hins vegar tókst ekki að birta honum ákæruna og var málinu því frestað. Dütsch sagðist aðspurður ekki hafa haft hugmynd um að skipstjórinn hefði setið inni fyrir kókaínsmygl en hann fékk að sigla skipinu heimleiðis til Íslands eftir að leitað hafi verið í Hauki ÍS.

Fram kemur í Nordsee Zeitung að Íslendingarnir virðist ekki hafa átt von á því að leitað yrði í skipinu þrátt fyrir að mjög gjarnan sé leitað í fiskiskipum. Það hafi mátt sjá á því hversu illa efnin voru falin. Heimildarmaður Fréttablaðsins segir hæpið að mennirnir hafi fjármagnað kaup efnanna sjálfir. Eins vill hann meina að nokkur hluti áhafnarinnar hafi áður komið við sögu lögreglu.

Eiríkur Böðvarsson, eigandi Hauks ÍS, segist hafa vitað um dóminn sem skipstjórinn hafi hlotið í Suður Ameríku fyrir kókaínsmyglið. Eiríkur segir hann þó aðeins vera afleysingaskipstjóra í þessum túr en að öllu jöfnu sé hann stýrimaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×