Erlent

Harka gegn Hamas

Ísraelsher hélt áfram hernaðaraðgerðum sínum í gær gegn herskáum Palestínumönnum. Ísraelar segja hörkuna nauðsynlega en Hamas telur að verið sé að veikja samtökin í pólitísku tilliti. Frá því að eldflaugum var skotið á sunnudaginn frá Gaza yfir landamærin að Ísrael hefur Ísraelsher ráðist gegn uppreisnarmönnum með oddi og egg, enda þótt samtökin Heilagt stríð og Hamas hafi þegar sagst ætla að láta af árásum. Síðustu daga hefur eldflaugum verið skotið á valin skotmörk í Gaza-borg þannig að rafmagnslaust hefur verið í borginni og í gær var skotið úr fallbyssum á hús uppreisnarmanna. Á sama tíma var skrifstofum ýmissa samtaka, þar á meðal góðgerðafélaga, lokað á Vesturbakkanum en þau eru sökuð um að styrkja fjölskyldur sjálfsmorðssprengjumanna. Ísraelsk stjórnvöld segja aðgerðirnar séu nauðsynlegar til að koma á reglu í landinu. Í fyrradag gekk Shaul Mofaz varnarmálaráðherra svo langt að hóta leiðtogum Hamas að þeir gætu orðið næstu skotmörk hersins. Hamas-liðar telja að Ísraelar séu að nota tækifærið og ganga milli bols og höfuðs á samtökunum fyrir kosningarnar á palestínsku heimastjórnarsvæðunum í janúar en þar er Hamas spáð góðu gengi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×