Erlent

Sóttur til saka

Fyrrverandi yfirmanni Concorde-flugáætlunarinnar í Frakklandi hefur verið stefnt vegna flugslyss Concorde-vélar árið 2000, þar sem á annað hundrað manns lét lífið. Flugi Concorde farþegavélanna hljóðfráu var hætt fyrir tveimur árum, vegna mikilla rekstrarerfiðleika sem fylgdu í kjölfar flugslyssins, sem varð skömmu eftir flugtak á Charles de Gaulle flugvellinum í París. Meðal þeirra sem lét lífið í flugslysinu var flugmaðurinn Christian Marty, en fjölskylda hans ákvað að höfða mál gegn Henri Perrier, fyrrverandi yfirmanni Concorde flugáætlunarinnar. Perrier, sem hafði meðal annars yfirumsjón með tilraunaflugi á Concorde vélunum árið 1969, er stefnt fyrir manndráp í tengslum við slysið, og er hann sá fyrsti af fyrrverandi forsvarsmönnum Concorde, sem á yfir höfði sér ákæru vegna málsins. Sækjendur þess halda því fram að Perrier hafi vitað að öryggi fólks um borð í vélinni hafi verið ábótavant.  Lögmaður fjölskyldu Christian Marty finnst eðlilegt að Perrier sæti rannsókn. Perrier beri ábyrgð Concorde áætluninni ekki aðeins á hönnunarstiginu heldur einnig þegar vélin var tekin í notkun. Hann vissi eflaust um ýmis vandamál, þau voru greind og þeir vissu hver rót þeirra var og hvað þurfti að gera en ekkert var gert.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×