Erlent

Aðild að alþjóðastofnunum í hættu

Aðild Póllands að Evrópuráðinu er í hættu ef íhaldssamir sigurvegarar nýafstaðinna þingkosninga þar í landi ákveða að taka upp dauðarefsingu að nýju. Bæði Jaroslav Kaczynski, leiðtogi flokks Laga og réttlætis, og bróðir hans Lech Kaczynski forsetaframbjóðandi hafa mælt fyrir því að dauðarefsingar skuli teknar upp sem meðal til þess að berjast gegn glæpum og spillingu. "Við gerum ráð fyrir að aðildarríkin standi við skuldbindingar sínar. Það eru engar dauðarefsingar í Evrópu," sagði Jan Kleijssen, aðstoðarmaður Terry Davis, forseta Evrópuráðsins. Þá samræmast dauðarefsingar ekki stefnu Evrópusambandsins enda afnumdu Tyrkir slíkar refsingar á sínum tíma til að greiða fyrir aðild sína að Evrópusambandinu. Í ljósi þess verður að teljast vandséð að ESB-aðild Pólverja standist taki þeir upp slíkar refsingar. Flokkur Kaczynskis var sigurvegari í þingkosningunum í Póllandi um helgina með tæp 27 prósent atkvæða. Flokkur Donalds Tusks, Borgaravettvangurinn, var næstur með rúmlega 24 prósenta fylgi. Líklegt þykir að þessir tveir flokkar myndi samsteypustjórn á allra næstu dögum. Yfirlýst eru áform um einkavæðingu og minnkuð ríkisafskipti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×