Erlent

Bölvun fyrir Palestínumenn

Óformlegt vopnahlé Ísraela og Hamas-samtakanna er í hættu eftir að samtökin skutu eldflaugum á Ísrael og þeim árásum var svarað af mikilli hörku. Hamas-liðar skutu yfir fjörutíu eldflaugum frá Gaza-svæðinu á nærliggjandi ísraelska bæi. Ísraelar svöruðu með loftárásum, auk þess sem hernum hefur verið gefin heimild til þess að beita stórskotaliði gegn eldflaugaskotmönnum. Ísraelska stórskotaliðið ræður yfir ratsjám sem á augnabliki geta reiknað út nákvæmlega hvaðan eldflaugum er skotið og er hægt að svara slíkum árásum samstundis með fallbyssuskothríð. Forsætisráðherra Palestínumanna, Ahmed Qureia, er ekki sáttur við þróun mála og gagnrýnir Ísraela harðlega. En varaforsætisráðherra Ísraels, Shimon Peres, er ekki í neinum vafa um hjá hverjum sökin liggur. Hann sagði í dag að Hamas-samtökin væru stjórnlaus samtök og ófær um að gæta vopna sinna. „Þau hafa leitt hörmungar yfir þjóð sína. Þau eru bölvun fyrir Palestínumenn, ógnun við friðinn og vandamál fyrir Ísraelsmenn,“ sagði Peres. Ísraelar eru öskureiðir Palestínumönnum fyrir eldflaugaárásirnar frá Gaza. Aeins eru liðnar tvær vikur frá því að þeir fluttu þaðan alla landnema sína og hermenn og palestínskar öryggissveitir eiga nú að halda uppi lögum og reglu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×