Erlent

Íþróttamót múslimakvenna í Íran

Alþjóðlegt íþróttamót múslimakvenna hófst í Íran um helgina. Íþróttakonur frá Bandaríkjunum taka nú þátt í fyrsta sinn og eru snyrtilega klæddar, eins og stallsystur þeirra. Þetta alþjóðlega mót íslamskra kvenna var fyrst haldið árið 1993 og er tilgangurinn sá að gefa múslimakonum tækifæri til þess að keppa í íþróttum, án þess að brjóta íslömsk lög sem banna konum að keppa fáklæddar fyrir framan karlmenn. Þessir leikar njóta fulls stuðnings frá Alþjóðlegu Ólympíunefndinni. Meðal keppenda eru konur frá Afganistan sem segja að staða kvenna hafi batnað til muna í landinu síðan stjórn talíbana var steypt af stóli. Konur geti stundað þá íþrótt sem þær vilji og tekið þátt í félagsstarfi.   Íþróttafólkið er frá þrjátíu og fjórum löndum og í ár er kona frá Bandaríkjunum, Saira Kureshi, meðal keppenda í fyrsta skipti. Þetta er raunar í fyrsta skipti í tuttugu og sex ár, eða frá íslömsku byltingunni, sem bandarísk íþróttakona kemur til keppni í Íran, og henni hefur verið vel tekið. Hún segist vera mjög ánægð og stolt af því að vera bandarísk, múslimsk íþróttakona, stödd í Íran. Kureshi er hlaupari og mun keppa í 800og 1500 metra hlaupi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×