Erlent

Herinn má beita stórskotaliði

Ríkisstjórn Ísraels hefur gefið hernum heimild til þess að beita stórskotaliði til þess að stöðva eldflaugaárásir Palestínumanna frá Gaza-svæðinu. Þess eru varla fordæmi að ríkisstjórn hafi gefið leyfi til þess að beita stórskotaliði nánast innan eigin landamæra. Ísraelar hafa raunar beitt bæði þyrlum og orrustuþotum til árása á meinta hryðjuverkamenn, en þetta er engu að síður nýtt skref í átökunum undanfarna áratugi. Þegar í morgun var skotið af fallbyssum inn á Gaza-svæðið og segir yfirstjórn hersins að þetta hafi verið prufuskot til þess að hægt verði að skjóta með mikilli nákvæmni, ef þörf krefur. Ísraelska stórskotaliðið ræður yfir ratsjám sem á augnabliki geta reiknað út nákvæmlega hvaðan eldflaugum er skotið, og er hægt að svara slíkum árásum samstundis með fallbyssuskothríð. Slík skothríð getur auðvitað valdið manntjóni meðal óbreyttra borgara en palestínskir hryðjuverkamenn eru gjarnir á að skýla sér á bakvið sakleysingja. Ísraelar handtóku yfir tvö hundruð grunaða hryðjuverkamenn á Vesturbakkanum í dag og vöruðu Palestínumenn við harkalegum hefndaraðgerðum vegna eldflaugaárása frá Gaza-svæðinu. Tvær vikur eru liðnar frá því Ísraelar fluttu landnemabyggðir og alla hermenn sína frá Gaza. Palestínskar öryggissveitir eiga nú að halda þar uppi lögum og reglu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×