Erlent

Minna tjón en óttast hafði verið

Fellibylurinn Ríta náði landi í morgun við fylkjamörk Texas og Louisiana. Þar fór hann yfir Galveston, Houston, Lake Charles og New Orleans. Þrátt fyrir ógnarkraft olli Ríta ekki jafn miklu tjóni og óttast hafði verið. Ingólfur Bjarni Sigfússon, fréttamaður Stöðvar 2 og Bylgjunnar, er í Houston í Texas. Ríta var ennþá bylur að stærðargráðu fjögur þegar hún gekk á land í nótt. Þrátt fyrir mikið hvassviðri og hellirigningu er ekki vitað til þess að neinn hafi týnt lífi. Skemmdir eru einhverjar en takmarkast að mestu við eitt og eitt hús eða stöku götur, en ekki heilu borgirnar eins og þegar Katrín gekk yfir. Engar fregnir hafa borist af flóðum vegna rigningarinnar en ár og vötn hafa þó flætt yfir bakka sína. Houston, eina stórborgin á hættusvæðinu, slapp við það versta. Utan Beaumont, Port Arthur og fleiri bæja nærri fylkjamörkum Texas og Louisiana var það New Orleans þar sem afleiðinganna var helst vart. Varnargarðar gáfu sig strax í gær og í dag hefur rignt töluvert. Því flæðir á ný og það mun seinka björgunarstarfi. Þó skemmdirnar virðist í fyrstu ekki hafa verið miklar er ljóst að Ríta var mjög öflug; svo öflug að hún var enn fellibylur meira en tólf klukkustundum eftir að hún gekk á land. Venjulega fjara bylirnar út og halda norður en Ríta fer sér hægt og gæti jafnvel mjakast út á Mexíkóflóa á ný. Þar gæti hún valdið enn meiri röskun á olíuborpöllum og hreinsunarstöðvum og þannig valdið frekari hækkun á olíuverði. Yfirvöld vilja ekki taka neina áhættu og hvetja þá sem flýðu að halda kyrru fyrir. Margir voru þó farnir af hótelum í Houston síðdegis og umferðin inn í borgina var orðin töluverð.  George Bush Bandaríkjaforseti er nú þegar farinn að tala um það uppbyggingarstarf sem þarf að eiga sér stað. Þrátt fyrir að Ríta hafi valdið minni skaða en reiknað var með er talið að tjón af völdum hennar muni nema allt að fimm milljörðum bandaríkjadala, eða um 300 milljörðum íslenskra króna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×