Innlent

Jarðgöng myndu kosta milljarð

Kostnaður við að gera jarðgöng fram hjá mesta hættusvæðinu á Óshlíðarvegi til Bolungarvíkur er áætlaður um einn milljarður króna en gerð vegskála yfir núverandi veg á sama svæði myndi kosta helmingi minna, eða um 500 milljónir. Þetta kom meðal annars fram á fundi Almannavarnanefndar Bolungarvíkur í gær þar sem fjallað var um vaxandi grjóthrun á veginn og þar með vaxandi hættu fyrir vegfarendur. Ákveðið er að vinna að lausn málsins í samvinnu við Vegagerðina og Veðurstofuna á næstunni og málið verður að líkindum tekið fyrir á ríkisstjórnarfundi innan skamms þar sem það þykir nú vera orðið brýnt öryggismál. Óshlíðarvegur er eina landleiðin til og frá Bolungarvík og margir Bolvíkingar sækja vinnu og þjónustu til Ísafjarðar. Í tveggja ára gamalli skýrslu jarðvísindamanna kemur fram að talsverð hreyfing sé á 30 til 40 metra langri sprungu efst í Óshyrnufjalli, sem færist í aukana, og ástæða sé til að óttast að all stór stykki geti hrunið úr brúninni yfir veginn og í sjó fram.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×