Erlent

Tala látinna líklega ofmetin

Færri kunna að hafa látist af völdum fellibylsins Katrínar en fyrst var óttast. Starf björgunarsveitarmanna beinist nú fyrst og fremst að því að hafa uppi á líkum í New Orleans. Það er fyrst nú sem björgunarsveitarmenn hafa getað gefið sér tíma til að leita að líkum í New Orleans því fram að þessu hafa allir þeirra kraftar farið í að bjarga fólki í neyð. Undanfarinn sólarhring hafa björgunarmenn gengið í hvert hús, bæði í leit að líkum og eins til að flytja burt þá sem enn þrjóskast við á heimilum sínum. Eftir gróflega leit um borgina bendir margt til að mun færri hafi farist í borginni en talið var í fyrstu. Óttast var að allt að tíu þúsund manns hefðu farist bara í New Orleans en enn sem komið er eru staðfest dauðsföll bara brot af þeirri tölu. Betur hefur gengið að flytja fólk burtu en útlit var fyrir. Þannig hefur enn ekki komið til verulegra átaka og flestir virðast loks farnir að átta sig á því að það sé best að hlýða og yfirgefa borgina. Það hefur sitt að segja að ránum hefur fækkað mjög eftir harðar aðgerðir yfirvalda og fólk óttast ekki lengur að skilja eigur sínar eftir. Vatn hylur ennþá um sextíu prósent borgarinnar en vel hefur gengið að dæla því burt og miklir þurrkar hafa hjálpað til. Dælurnar sem búið er að koma fyrir um alla borg eru heldur engin smásmíð og samanlagt dæla þær á hverjum klukkutíma vatni sem gæti fyllt meira en fjögur hundruð keppnissundlaugar. Vonast er til að búið verði að dæla öllu vatni úr borginni í lok október. Í gær var tilkynnt að Michael Brown, yfirmaður almannavarna, stýrði ekki lengur björgunaraðgerðum á hamfarasvæðunum. Í hans stað mun Thad Allen, yfirmaður strandgæslunnar, taka við stjórnartaumunum. Brotthvarf Browns hefur samt ekkert minnkað þrýstinginn á Bush Bandaríkjaforseta og Michael Shertoff, yfirmann heimavarnarmála. Þingmenn demókrata vilja að óháð rannsóknarnefnd verði látin fara yfir málið og Bush sjálfur verði látinn svara fyrir seinaganginn og klúðrið við björgunarstörfin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×