Erlent

Brennuvargar kveikja skógarelda

Brennuvargar hafa kveikt tugi skógarelda í Portúgal í sumar og brennt um það bil sjötíu þúsund hektara af skóglendi til kaldra kola. Verstu þurrkar í manna minnum hafa verið í Portúgal, í sumar. Þurrkunum hefur fylgt mikil hitabylgja og fleiri skógareldar en elstu menn muna. Margir eldarnir hafa kviknað af náttúrulegum orsökum, en lögreglan telur einnig að tugir elda hafi verið af mannavöldum. Yfir áttatíu manns hafa verið handteknir, á þessu ári, grunaðir um íkveikju. Eldarnir hafa valdið miklu tjóni. Fyrir utan um sjötíuþúsund hektara af skóglendi, sem hafa brunnið til kaldra kola, hafa tugir húsa orðið eldinum að bráð. Yfir eitt hundrað og fimmtíu slökkviliðsmenn með fjörutíu og sex slökkviliðsbíla og fimm flugvélar, hafa barist við að reyna að verja hús á þessu svæði, en þegar hefur kviknað í mörgum þeirra. Eldsmaturinn er svo þurr og svo mikill að þetta virðist hérumbil vera vonlaust. Slökkviliðsmennirnir eru þó síður en svo á því að gefast upp, og segjast munu hafa sigur fyrr eða síðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×