Erlent

Marglyttur hrjá ferðamenn á Spáni

Marglyttur í milljónatali hrjá nú ferðamenn á Miðjarðarhafsströnd Spánar. Sums staðar er varla þorandi að fara í sjóinn. Marglyttustungur eru ekki lífshættulegar en þær eru sársaukafullar og skilja eftir sig ljót sár. Fólk sem hefur einhvers konar ofnæmi gæti hugsanlega orðið illa úti. Það er nógu slæmt að fá marglyttusár á fæturna en náttúrlega hrein skelfing að fá þau á unga sólbrúna líkama eða andlit, sem getur hæglega gerst ef fólk er að busla með marglyttum á annað borð. Rauði krossinn segir að það sem af sé þessu sumri hafi lífverðir þess á baðströndum í Katalóníu einni gert að stungusárum 11 þúsund ferðamanna. Það eru helmingi fleiri tilfelli en í fyrra en þá þegar voru marglytturnar farnar að fjölga sér. Nú þykir ástandið vera orðið grafalvarlegt því það getur stofnað ferðaiðnaðinum á Spáni í voða ef marglyttunum fjölgar ár frá ári. Fjölgun þeirra er sögð vera vegna þurrka, hita og ofveiði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×