Innlent

Tjaldvagn fauk á bíla í roki

Það blæs hressilega í höfuðborginni, meira en 20 metra í sterkustu hviðunum. Tjaldvagn fauk á tvo kyrrstæða bíla, plötur losnuðu af Korpuskóla, bárujárnsplötur tókust á loft og ryðguð þakrenna sópaðist af húsi í Hafnarfirði. Bílstjórar verða að gæta sín á ýmsu sem fýkur út á götu, frauðplastkössum, plasttunnum, hríslum úr görðum og þvílíku. Tveir björgunarsveitarbílar hafa verið á ferðinni að aðstoða við að fergja dót sem annars gæti fokið og koma í veg fyrir að skemmdir hljótist af en yfir 20 hjálparbeiðnir vegna foks hafa borist svæðisstjórn sveitanna og er þessa stundina verið að fjölga björgunarmönnum.   Veðrið hefur valdið erfiðleikum víðar á suðvesturhorninu. Björgunarsveitin Suðurnes í Njarðvík var kölluð út í morgun vegna foks í Keflavík og Njarðvík.  Þá var björgunarskipið Einar Sigurjónsson á æfingu fyrir utan Hafnarfjörð í morgun þegar tilkynnt var um gáma sem fokið höfðu úr Kópavogshöfn. Um er að ræða tvo 40 feta gáma. Þeir eru tómir. Björgunarskipið fór á vettvang og hefur gámana nú rekið upp á Löngusker. Beðið er átekta með frekari aðgerðir. Að sögn lögreglunnar hafa hvorki orðið slys á fólki né tilfinnanlegt tjón. Samkvæmt veðurspánni á að lægja nú upp úr hádeginu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×