Innlent

Raggagarður opnaður á Súðavík

Kærleikur og ást er hvatinn að fyrsta fjölskyldugarði Vestfirðinga sem opnaður var í Súðavík í dag. Vilborg Arnarsdóttir átti sér draum um stað þar sem fjölskyldur gætu átt saman góðar stundir og nú hefur hún látið hann rætast með góðum stuðningi. Garðurinn, sem nefnist Raggagarður, er tileinkaður minningu sonar Vilborgar sem lést ungur að aldri í bílslysi. Sumir láta sér nægja að dreyma en aðrir framkvæma. Vilborg Arnarsdóttir, oftast kölluð Bogga, tilheyrir síðastnefnda hópnum. Eftir tveggja ára vinnu er Raggagarður orðinn að veruleika, staður þar sem fjölskyldur geta skemmt sér saman. Hvatinn er að heiðra minningu Ragnars Freys Vestfjörð, sonar Vilborgar sem lést í bílslysi í Súðavík árið 2001 sautján ára gamall. Hugsunin með garðinum er að fólk eigi að njóta þess sem það hefur, samverustunda með ástvinum og fjölskyldu. Aðspurð hvernig hugmyndunum hafi verið tekið í upphafi segir Vilborg að nokkrar efasemdaraddir hafi heyrst en almennt hafi þeim verið tekið vel. Hún hafi ætlað að gera leiktæki í garðinum úr rekavið en það megi ekki lengur heldur verði að kaupa öll leiktæki. Kostnaður verkefnisins sé kominn í 20 milljónir og því hafi verið ákveðið að stofna félag um garðinn. Í dag var fyrsti áfangi garðsins opnaður og því er enn töluverð vinna eftir. Miðað við áhuga heimamanna á verkefninu er þó engin hætta á að verkið strandi hér. Vilborg segir að það sé auglýstur vinnudagur í þorpinu og þá mæti frá 6 til 25 manns í hvert sinn til að leggja hönd á plóginn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×