Innlent

Vill auka réttindi samkynhneigðra

Árni Magnússon félagsmálaráðherra styður heilshugar helsta baráttumál homma og lesbía um að öðlast fullan rétt á við gagnkynhneigða til fjölskylduþáttttöku. Þetta kom fram í ræðu sem Árni hélt á "Hinsegin dögum", sem haldnir voru í miðborg Reykjavíkur í gær. "Ég trúi því að innan tíðar verði réttur homma og lesbía til að ættleiða börn til jafns á við gagnkynhneigð pör," sagði Árni. "Að lesbíur í staðfestri samvist njóti sama réttar og aðrar konur til tæknifrjóvgunar á sjúkrastofnunum og að þess verði ekki heldur langt að bíða að prestum og forstöðumönnum safnaða verði heimilaður réttur, óski þeir þess, til að gerast vígslumenn þeirra sem hyggjast ganga í staðfesta samvist." Árni sagði að árið 1996 hefði verið stigið stórt skref í jafnréttisbaráttu samkynhneigðra þegar lög um staðfesta samvist voru sett. Hann sagði hins vegar að ekki ætti að láta þar staðar numið. Ættleiðingar og tæknifrjóvganir samkynhneigðra væru á meðal þess sem þyrfti að taka til alvarlegrar skoðunar. "Ég tek undir það sjónarmið að meginmarkmið ættleiðingar er að útvega barni fjölskyldu en ekki að útvega fjölskyldu barn. Nauðsynlegt er að tryggja barni bestu hugsanlegar aðstæður og ég tel þær geta allt eins verið að finna hjá samkynhneigðum sem gagnkynhneigðum foreldrum." Í ræðu sinni kallaði Árni á opnari og hreinskiptari umræðu um rétt samkynhneigðra til fjölskyldulífs. "Við þurfum að auka fræðslu til skólabarna um þessi mál sem og almennings, til að sporna við fordómum, því við viljum standa vörð um að mannvirðing sé í heiðri höfð í okkar samfélagi."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×