Innlent

Tuttugufaldur íbúafjöldi á Dalvík

Fiskur, fjör og bongóblíða. Íbúafjöldinn á Dalvík er talinn hafa að minnsta kosti tuttugufaldast í dag þegar fleiri en þrjátíu þúsund manns sóttu Fiskidaginn mikla. Sagt er að aldrei hafi fleiri sótt hátíðina en nú en í fyrra tóku um þrjátíu þúsund manns þátt í stórhátíð þessa 1500 manna bæjarfélags. Boðið var upp á stanslaus skemmtiatriði í dag, allt frá listflugi og siglingum til söngva og snigla. Júlíus Júlíusson, framkvæmdastjóri Fiskidagsins mikla, sagði að markmið dagsins væri aðeins eitt: Að koma saman, hafa gaman og borða. Og að sjálfssögðu var boðið upp á fisk, fisk og aftur fisk á Fiskideginum mikla, hvort sem það var til að snæða eða skoða. Gestir voru almennt mjög ánægðir með daginn og sögðu hann verða æ skemmtilegari. Hógvær framkvæmdastjórinn tekur undir þau orð af heilum hug. Hann segir að adráttaraflið felist í stemmningunni. Ekkert sé um áreiti, allt sé frítt, veðrið gott og skipulag sömuleiðis. Aðspurður hvort dagurinn sýni eðli Íslendinga, að ef eitthvað sé frítt mæti þeir á staðinn, segir Júlíus að hann telji svo ekki vera. Stemmningin og félagsskapurinn dragi fólk að og það njóti alls.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×