Erlent

Rússar tregir til að þiggja aðstoð

Rússar eru tregir til að þiggja aðstoð Bandaríkjamanna og Breta við að bjarga dvergkafbátnum sem sökk undan ströndum Kamsjatka í gær. Þeir segja svæðið yfirfullt af hernaðarleyndarmálum. Eins og þegar kafbáturinn Kursk fórst fyrir fimm árum, með 118 manna áhöfn virðist nú lítið að marka það sem Rússar segja. Dvergkafbáturinn AS-28 sökk á fimmtudag eftir að dræsur festust í skrúfu hans. Í fyrstu var sagt að sjö manna áhöfnin hefði nóg loft í fimm daga, nú er sagt að það endist hugsanlega til morguns. Kafbáturinn liggur á 190 metra dýpi, sem er alltof djúpt til þess að áhöfnin geti yfirgefið hann og synt upp á yfirborðið. Bæði Bretar og Bandaríkjamenn hafa sent ómannaða, fjarstýrða björgunarkafbáta flugleiðis til Kamsjatka en Rússar eru tregir til að leyfa þeim að kafa niður að AS-28. Undan ströndum skagans eru allskonar hernaðarmannvirki, hlustunar og fjarskiptastöðvar og þar fram eftir götunum. „Það væri allt eins hægt að bjóða öllu NATO á staðinn,“ sagði rússneskur flotaforingi á eftirlaunum. Næst æðsti yfirmaður flotans tók í sama streng og sagði að það væri engin þörf fyrir hjálp erlendis frá enn þá. Rússar væru að byrja aðra tilraun til þess að lyfta AS-28 upp á yfirborðið. Vladímír Pútín forseti er þó vel minnugur þeirrar reiði sem gaus upp í landinu þegar björgun áhafnarinnar á Kursk var klúðrað vegna seinagangs flotans. Hann hefur því sent varnarmálaráðherra landsins til Kamsjatka til þess að stjórna björgunaraðgerðunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×