Innlent

Stórhætta á þjóðveginum

Umferð hjólandi og gangandi ferðamanna er líklega hvergi meiri á Íslandi en við Mývatn að sumarlagi. Þrátt fyrir það er enga malbikaða hjóla- og göngustíga að finna við vatnið. Því neyðast ferðalangar oftar en ekki til að nota þjóðveginn til að komast á milli áhugaverðra staða við Mývatn og setja þar með sjálfa sig og akandi í stórhættu. Vegagerðin, Ferðamálaráð, Lögreglan, sveitarstjórn Skútustaðahrepps, ferðaþjónustuaðilar á svæðinu og heimamenn almennt eru sammála um að knýjandi sé að leggja göngu- og hjólreiðastíga en Vegagerðin hefur ekki fjárveitingar í verkefnið. Yngvi Ragnar Kristjánsson, hótelstjóri Sel-Hótels við Mývatn, segir að hátt í 200 þúsund ferðamenn komi til Mývatns á sumrin og stór hluti þeirra staldri við í skemmri eða lengri tíma og gangi eða hjóli um svæðið. "Ferðaþjónustufólk við Mývatn hefur rætt nauðsyn þess að leggja hjólreiða- og göngustíga við vatnið en ekki er að sjá að slík framkvæmd sé í farvatninu," segir Yngvi Ragnar. Sigurður Oddsson, deildarstjóri Vegagerðarinnar á Akureyri, segir að fyrir mörgum árum hafi verið rætt um að leggja göngu- og hjólreiðastíga hringinn í kringum Mývatn. Kostnaðurinn hafi hins vegar ekki verið skoðaður og slík framkvæmd ekki verið á borði Vegagerðarinnar hin síðari ár. "Vegurinn um Námaskarð var á sínum tíma breikkaður með umferð gangandi og hjólandi í huga og að ósk heimamanna höfum við sett hraðatakmarkanir, allt niður í 50 km, við Skútustaði og í gegnum Voga- og Reykjahlíðarhverfi. Fleiri aðgerðir, vegna hjólreiða- og göngufólks höfum við ekki ráðist í, enda ekkert fjármagn að hafa í önnur verkefni," segir Sigurður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×