Innlent

Foreldrar teknir í kennslustund

Tuttugu nemendur hafa þegar verið innritaðir í nýja skólann í Norðlingaholti sem tekur til starfa í haust. Sif Vígþórsdóttir skólastýra gerir þó ráð fyrir að sextíu börn nemi við skólan á fyrstu önn. "Við byrjum á því að kenna fyrsta til sjötta bekk og svo bætum við einum árgangi við árlega uns við verðum komin með tíunda bekk en þá verður hæðsta menntastígi náð hér í Norðlingaholti," segir Sif og brosir við. Ekki verður farið troðnar slóðir við mótun skólastarfsins því Sif er með ýmsar áherslur sem ekki hafa rutt sér til rúms hér á landi. "Við lítum ekki svo á að foreldrar þurfi alltaf að hafa frumkvæði að því að leita til okkar kennara og skólayfirvalda, við eigum líka að leita til þeirra og því munu kennarar skólans byrja á því fyrsta skóladaginn að fara heim til foreldra og kynnast þeim aðeins," segir skólastýran. Hún segist vera að koma úr sveitini og því megi Norðlingahyltingar eiga von á áhrifum frá íslenskri sveitamenningu í skólastarfi skólans. "Við munum til dæmis fara með nemendur um holt og hæðir hér í grendinni og gera þau átthagavön hér við Norðlingaholt," útskýrir hún. Það gustaði af starfsfólki skólans sem vinnur hörðum höndum að undirbúningi skólans. Skólabyggingin er ekki tilkomumikil en fyrstu árin verða kennarar og nemendur að gera sér að góðu nokkra skála sem nýlega hafa rutt úr vegi gömlu hesthúsunum á Norðlingaholti. Hesthúsin eru þó ekki með öllu farin því sjá má háar rústir fyrir aftan skólaskálana. "Það er alveg ljóst að fyrstu árin verðum við að búa við ýmsar tilbreytingar og óvissu en við erum undir það búin því þegar við leituðum að starfsfólki vó það hátt hjá umsækjendum ef þeir voru með húmorinn í lagi og með hátt óvissuþol," segir skólastýran og hlær. Gert er ráð fyrir því að þegar skólinn verði fullmótaður verði nemendur á bilinu þrjú til fjögur hundruð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×