Innlent

Kaupfélagsstjórinn í Holtinu

Óhætt er að segja að verslun og þjónusta séu á frumstigi í Norðlingaholti enn sem komið er. Þar er aðeins ein sjoppa sem heitir Grillkofinn en nafnið gefur vel til kynna stærð hennar og umsvif. Þó hefur reksturinn tekið nokkrum breytingum síðustu mánuði. Aðalbjörg Pálsdóttir var við afgreiðslustörf þegar blaðamaður kom í kofann og hún útskýrði fyrir honum þróun verslunar í Norðlingaholti. "Við eltum nú bara iðnaðarmennina hingað úr Grafarholtinu en við erum svona farandsmötuneyti og svo erum við auðvitað með grill eins og nafnið gefur til kynna," segir Aðalbjörg, meðan hún hellir upp á rótsterkt kaffi. "Íbúum hefur stórfjölgað í hverfinu og þeir reka líka nefið hingað inn í síauknum mæli og þá sérstaklega til að kaupa það sem gleymdist í stórmarkaðnum svo ég kem til móts við þá þörf og er komin með eitthvað af heimilisvörum líka. Þannig að ég er orðinn svona hálfgerður kaupfélagsstjóri í hverfinu," segir hún og hlær. Grillkofinn fær þó ekki að þróast mikið meira í Norðlingaholti þar sem hann hefur gert samning við Reykjavíkurborg um að metta maga iðnaðarmanna á byggingarsvæðum og því munu íbúar Norðlingaholts líta á eftir Grillkofanum eftir tvö til þrjú ár á annað svæði þegar öll húsin verða upp komin á holtinu við Rauðavatn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×