Innlent

Myndbrot úr Eyjum ekki afhent

Myndbrotið fræga úr Vestmannaeyjum, sem á að sýna atvikið, þar sem Hreimi Erni Heimissyni og Árna Johnsen lenti saman, fæst ekki afhent. Þjóðhátíðarnefnd biður Hreim afsökunar á framferði Árna á Þjóðhátíð. Fréttastofan hefur ítrekað reynt að fá umrætt myndbrot til sýninga en forsvarsmenn heimildamyndarinnar sögðu í fyrradag að þeir myndu ekki afhenda myndbrotið til að koma Vestmannaeyjabæ ekki illa. Í gær sögðu þeir svo að myndbrotið fyndist ekki en í dag segja þeir hins vegar að ef myndbrotið finnist þá verði það í heimildarmyndinni sem sýnd verður í kvikmyndahúsum. Þeir segja einnig að myndbrotið verði sýnt Þjóðhátíðarnefnd og Hreimi ef það finnist. Forsvarsmenn kvikmyndarinnar sögðu í fyrradag að þeir ynnu að heimildarmyndinni í samstarfi við Vestmannaeyjabæ og vildu ekki að myndbrotið yrði sýnt til að hlífa bænum. Bæjarstjóri Vestmannaeyja sendi frá sér yfirlýsingu þar sem sagt var að um ekkert samstarf væri að ræða og var hvatt til þess að myndbrotið yrði sýnt. Þjóðhátíðarnefnd sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem uppákoman á Brekkusviðinu á sunnudagskvöld er hörmuð. Nefndin biður Hreim Örn Heimisson afsökunar á framferði Árna Johnsens umrætt kvöld. Hreimur hafi reynst öflugur starfsmaður Þjóðhátíðarnefndar og störf hans verðskuldi einungis virðingu og þakklæti. Fréttastofan hefur heimildir fyrir því að Þjóðhátíðarnefnd sé að skoða stöðu Árna Johnsens innan nefndarinnar og hvort hann muni stjórna brekkusöng í framtíðinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×