Innlent

Bærinn gæti boðið í reksturinn

Lúðvík Bergvinsson, forseti bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar, útilokar ekki að bærinn bjóði í rekstur Vestmannaeyjaferju. Enn hafa þó engar ákvarðanir verið teknar í þeim efnum að hans sögn en málið verður skoðað. Vegagerðin hefur boðið út rekstur ferjunnar árin 2006 til 2010 og gerir ráð fyrir að ferðum verði fjölgað í þrettán á viku milli lands og Eyja. Núgildandi sumaráætlun gerir ráð fyrir þrettán ferðum á viku en færri ferðir hafa verið farnar yfir vetrartímann. "Verið er að auka og bæta samgöngur til Vestmannaeyja og við erum ánægð með það," segir Lúðvík en árlegum ferðum verður fjölgað úr 660 til 670 á ári í rúmlega sjö hundruð. "Þetta er skref í rétta átt," segir hann. Samskip hafa séð um rekstur Herjólfs síðastliðin ár og ætla að skila inn tilboði fyrir áframhaldandi rekstur að sögn Önnu Guðnýjar Aradóttur, markaðsstjóra Samskipa. "Við erum mjög ánægð með hvernig tekist hefur til með reksturinn og höfum átt gott samstarf við Vestmannaeyinga," segir hún.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×