Sport

Nýir útlendingar í lið KR og ÍBV

Seint í gærkvöldi komu hingað til lands tveir erlendir leikmenn sem spila með KR út sumarið. Það eru Dalibor Pauletic, 26 ára króatískur varnarmaður, og Erik Krzisnik, 31 árs miðjumaður. Mikið er um meiðsli í leikmannahópi KR og nú í síðasta leik meiddist Ágúst Gylfason á nýjan leik og verður frá í rúmlega hálfan mánuð. "Leikmannahópur okkar er ekki of stór og við viljum þétta hann fyrir lokaátökin. Þessir leikmenn sem við fáum hafa góð meðmæli frá mönnum sem þekkja vel íslenska knattspyrnu þannig að við bindum vonir við þá," sagði Sigurður Helgason, framkvæmdastjóri KR-Sports. Pauletic hefur spilað í efstu deild í heimalandinu en Krzisnik í næst efstu deild í Grikklandi, hann á að baki einn A-landsleik fyrir Slóveníu. Christopher Vorenkamp, bandarískur miðjumaður, hefur fengið leikheimild með ÍBV. Hann er 24 ára og hefur leikið með Minnesota Thunder í heimalandinu að undanförnu. Hann fékk leikheimild með liðinu í gærkvöldi og verður sjötti erlendi leikmaðurinn til að leika með liðinu í Landsbankadeildinni í sumar. Eyjamenn eru nú staddir í Færeyjum þar sem þeir mæta B36 í Evrópukeppninni í kvöld, fyrri leikur liðanna endaði 1-1.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×