Innlent

Vilja stefgjöld af orlofshúsum

Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar, STEF, hefur sent stéttarfélögum kröfu um að STEF gjöld af sumarhúsum sínum, þar sem flutningur um sjónvarp og útvarp fari fram í þessum húsum. Orlofssjóður Bandalags háskólamanna fékk slíka kröfu, en hefur alfarið hafnað henni. Gísli Tryggvason, framkvæmdastjóri Orlofssjóðsins sagði í samtali við fréttastofuna að sjóðurinn ætti um fjörutíu sumarhús, víðsvegar um landið. Gísli segir að orlofssjóðurinn sé stofnaður á félagslegum grunni með kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins, og sé lokaður öðrum. Hann starfi því ekki á almennum markaði og orlofshús hans geti ekki talist gististaðir, heldur séu þeir fremur ígildi heimila sjóðfélaga. Orlofshúsin geti heldur ekki talist vinnustaður, og almenningur hafi ekki aðgang að þeim, þannig að ekki sé um að ræða opinberan flutning á útvarpsefni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×