Innlent

Enginn kannast við laxinn

Gunnar Steinn Gunnarsson framkvæmdastjóri laxeldisfyrirtækisins Salar Islandica á Djúpavogi segir ólíklegt að lax hafi sloppið úr kvíum fyrirtækisins í Berufirði. "Við erum með fjórtán kvíar og við könnuðum ástand þeirra um daginn. Allt reyndist vera í stakasta lagi," segir Gunnar Steinn. Í sjókvíum fyrirtækisins eru að sögn Gunnars um sex til sjö hundruð þúsund laxar og meirihluti þeirra í uppvexti. "Hluti þeirra er að ná sláturstærð eða þriggja til fjögurra kílóa þyngd." Nærri sex kílóa þungur lax, sem veiddist í Breiðdalsá fyrir viku, bar þess merki að hafa verið alinn í sjókví. Á Austurlandi er lax aðeins alinn í sjókvíum í Berufirði skammt sunnan Breiðdalsár og í Mjóafirði. Sigurður Kári Jónsson starfsmaður Sæsilfurs í Mjóafirði segist hafa skoðað myndina af laxinum úr Breiðdalsá og kveðst sannfærður um að hann sé af norsku kyni. "Slitið á sporði og uggum bendir til þess að það sé vel gróið og að fiskurinn hafi þar af leiðandi verið nokkuð lengi utan eldiskvíar."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×