Innlent

Flóðið hefur náð hámarki sínu

Flóðið í Jöklu við Kárahnjúka hefur náð hámarki sínu og er rennsli í ánni farið að minnka. Mest náði það um það bil hundrað og áttatíuföldu meðalrennsli Elliðaánna en eftir flóðið í fyrra var ekki búist við öðru flóði í Jöklu fyrr en eftir tíu til tuttugu ár. Í fyrra flæddi Jökla yfir brúna við Kárahnjúka og var brúin á tveggja metra dýpi þegar rennslið varð mest. Þá sögðu Landsvirkjunarmenn að miðað við tölfræðina mætti búast við næsta svona flóði eftir einn til tvo áratugi. Í gær kaffærði áin hins vegar brúna annað árið í röð. Sigurður Arnalds, kynningarstjóri virkjunarinnar, segir þetta stafa af samfelldum hlýindum ár eftir ár sem komi víða fram, t.a.m. í minnkun jökla. „Þetta er viðburður sem að öðru jöfnu ætti að gerast á 10-20 ára fresti en það er hlýindaskeið núna á Íslandi og þess vegna fáum við þetta núna ár eftir ár,“ segir Sigurður. Síðdegis í dag var farið að draga úr rennslinu. Sigurður segir flóðið ekki hafa haft nein áhrif á framkvæmdirnar að Kárahnjúkum. Varnarstíflan fyrir neðan brúna geti tekið við þessu og meira til. Að sögn Sigurðar varð rennslið tæpir 900 rúmmetrar á sekúndu en til samanburðar er meðalrennsli Elliðaánna um fimm rúmmetrar. Sigurður segir alls ekki útilokað að flóð í Jöklu verði árleg. Það fari eftir því hvort þessi miklu hlýindi haldi áfram.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×