Innlent

Lax úr Breiðdalsá talinn eldislax

Flest bendir til þess að eldislax hafi veiðst á stöng í Breiðdalsá síðastliðinn miðvikudag. Um er að ræða nærri 14 punda hrygnu sem veiddist í svonefndum Mið Eyjakrók og hafa hreistursýni úr laxinum verið send Veiðimálastofnun. Sigurður Guðjónsson forstöðumaður Veiðimálastofnunar hefur skoðað mynd af laxinum og telur afar líklegt að um sé að ræða eldislax. "Uggar eru ansi nagaðir og einnig sporðurinn og það bendir til þess að laxinn hafi verið alinn í kví." Sigurður bendir jafnframt á slit á kjafti og tálknbörðum sem vísi einnig til þess að laxinn hafi verið alinn í kví. Segja megi með meiri vissu um upprunann þegar búið verði að rannsaka hreistrið af honum. Þrátt fyrir nálægð kvíaeldisins í Mjóafirði er ekki vitað til þess að eldislax hafi veiðst í austfirsku ánum í fyrra. Árið 2003 sluppu um þrjú þúsund laxar af norskum uppruna úr eldiskví Mjóafjarðarstöðvarinnar í Norðfjarðarhöfn. Nokkrir þeirra veiddust í Breiðdalsá og Selá og Hofsá í Vopnafirði sem og í öðrum ám á Austurlandi. Ekki er talið líklegt að laxinn úr Breiðdalsá sé úr hópi þeirra. "Okkur vitanlega hefur ekkert sloppið úr kvíunum nýlega," segir Sigurður Jónsson starfsmaður Sæsilfurs í Mjóafirði, en þar eru nú hátt í fimm þúsund tonn af laxi í kvíum. Sigurður getur þess að lítilræði af laxi hafi þó sloppið úr kví í firðinum í fyrra. Stangveiðimenn og umhverfissinnar hafa alla tíð bent á hættuna á því að norskur eldislax kynni að sleppa úr eldiskvíum í fjörðum austanlands og blandast villta íslenska laxinum. Órækar sannanir fyrir kynblöndun eru þó ekki enn fyrir hendi. Að sögn Sigurðar Guðjónssonar forstöðumanns Veiðimálastofnunar skortir enn þekkingu á afkomu og afdrifum slíkra seiða í hafinu og hvort þau megni yfirleitt að ganga aftur í árnar og tímgast.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×