Erlent

Íbúum létt þrátt fyrir mikið tjón

Íbúar Flórída og Alabama sluppu mun betur frá fellibylnum Dennis en óttast var en skemmdirnar eru talsverðar. Þök þeyttust af húsum, bátar slitnuðu upp og ráku á haf út, götur einstakra sjávarþorpa eru enn á floti og hálf milljón heimila og fyrirtækja stríðir við rafmagnsleysi. Talið er að rafmagnið verði ekki komið á hjá sumum fyrr en eftir þrjár vikur, jafnvel síðar. Heimamenn hófu hreinsunarstarf í gær þegar fellibylurinn var farinn norður fyrir Flórída og Alabama, hafði þá dregið mjög úr krafti óveðursins sem er ekki lengur flokkað sem fellibylur. Fellibylurinn var gríðarlega öflugur þegar hann gekk yfir Karíbahaf og nálgaðist strendur Bandaríkjanna en gekk niður skömmu áður en hann gekk á land. Einn lést þegar fellibylurinn gekk yfir Bandaríkin. Lík karlmanns fannst eftir að veðrið var gengið yfir, hann er talinn hafa stigið á rafmagnslínu sem féll til jarðar í veðurhamnum. Í það minnsta 20 manns létust þegar Dennis reið yfir eyjar Karíbahafs, tíu á Kúbu og í það minnsta jafn margir á Haítí. Munich Re, stærsta tryggingafélag heims, metur skemmdirnar sem Dennis olli á andvirði 200 til 330 milljarða króna, til samanburðar eru efri mörkin talsvart hærri en fjárlög íslenska ríkisins ár hvert. Fellibylurinn Dennis var mun minni en Fellibylurinn Ivan sem kostaði tugi manna lífið í fyrra. Dennis náði rúma 60 kílómetra út frá miðju sinni en Ivan um 170 kílómetra. Skemmdirnar urðu því á minna svæði en ella. Þeir sem urðu á vegi fellibylsins eiga þó um sárt að binda og sagði yfirmaður hamfaraskrifstofu alríkisstjórnarinnar nauðsynlegt að koma fólki til hjálpar. Fólk á vegum stofnunarinnar hóf í gær að dreifa hjálpargögnum til fólks á hamfarasvæðunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×