Innlent

Austurbær verður gerður upp

Fjárfestinga- og framkvæmdafélagið Nýsir hefur fest kaup á Austurbæ, húsinu sem áður var þekkt sem Austurbæjarbíó og síðar Bíóborgin. Félagið ætlar að reka húsið áfram sem menningar- og tónlistarhús. Sigfús Jónsson, framkvæmdastjóri Nýsis, segir að skrifað hafi verið undir kaupsamning í hádeginu í gær, en félagið keypti af verktakafyrirtækinu Húsbyggi ehf., sem sameinaðist nýverið ÁHÁ-byggingum, sem hafði keypt húsið og sóst eftir leyfi til að rífa það. Sú umleitan vakti upp mótmæli og á endanum fékkst ekki slíkt leyfi hjá borginni. "Við ætlum að gera húsið upp og leigja það svo út líkt og við gerum víðar við fasteignir," segir Sigfús og gerði ráð fyrir að svipaður rekstur yrði í húsinu og verið hefur. "Við leigjum húsið í stök verkefni, hvort sem það verður til tónlistarmanna, leikhópa eða annað." Hvorki verður þó lagt út í rekstur skemmtistaðs né kvikmyndahúss. "Næstur er söngleikurinn Anný, svo er Ávaxtakarfan og hvað þetta heitir allt saman. Eftirspurnin er nóg," segir hann. Kaupverð fæst ekki uppgefið, en nú segir Sigfús að lagst verði yfir að meta hversu umfangsmiklar endurbætur þurfi á húsinu. "Það þarf allavega að fríska þetta upp aðeins og mála í skemmtilegri litum," segir hann og gerir einnig ráð fyrir töluverðum endurbótum á húsmunum. "Við leggjumst yfir það með okkar mönnum að meta hvað þetta kostar, hvað við treystum okkur í mikið og hvað borgar sig að gera." Dagur B. Eggertsson, formaður skipulagsráðs Reykjavíkur, segir fregnirnar af sölunni mjög ánægjulegar. "Ráðagerðir nýrra eigenda falla út af fyrir sig mjög vel að okkar hugmyndum um svæðið í kringum Hlemm. Þar sjáum við á næstu árum sóknarfæri, íbúum gæti fjölgað og úr yrði ungt hverfi með menningarlegt og lifandi yfirbragð," segir hann og bætir við að borgin sé tilbúin að skoða hvað til þurfi að koma í skipulagi eða öðru til að húsið nýtist sem alhliða menningarhús. "Slíkar hugmyndir yrðu skoðaðar í samráði við íbúa og aðra hagsmunaaðila á svæðinu."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×