Lífið

Þristurinn lagður af stað

Þrír flugmenn skiptast á um að fljúga henni yfir hafið í dag, þeir Tómas Dagur Helgason, Hallgrímur Jónsson og Gunnar Arthursson. Það vakti athygli að þeir klæddust sérsaumuðum einkennisbúningum með sama sniði og flugmenn notuðu fyrir sextíu árum. Aðrir með í för eru þeir Hannes Thorarensen flugvirki og Björn Bjarnarson, sem var umsjónarmaður áburðarflugs Landgræðslunnar. Fyrir utan GPS-staðsetningartæki eru engin nútímatæki um borð, það verður því ekki hægt að stilla bara á sjálfstýringuna og hverfa upp fyrir skýin, því vélin verður í flughæðum undir tíu þúsund fetum og því verða flugmennirnir að halda vel um stýrin. Tómas Dagur Helgason, flugstjóri, segir þetta verða mjög skemmitlega ferð og milka tilbreytingu. Flugvélin hefur verið máluð í litum Icelandair, aðalstyrktaraðila Þristavinafélagsins, og verður þannig næstu tvö árin hið minnsta. Megintilgangur flugferðarinnar er að minnast þess að sextíu ár eru liðin frá því að farþegaflug hófst milli Íslands og annarra landa. Flogið er í dag í einum áfanga frá Reykjavík til Duxford, sem er rétt norðan við London. Vélin hefur flugþol í átta og hálfa klukkustund en flugtími til London er áætlaður um sjö klukkustundir. Til öryggis eru um borð bæði björgunarbátur og flotgallar fyrir áhöfnina en talið er að vélin hafi síðast flogið út fyrir landsteinana í kringum 1970. Þristurinn verður um helgina á stærstu flugsýningu sinnar tegundar í Evrópu í Duxford, á mánudag verður honum flogið til Glasgow en þar heldur Icelandair sérstaka afmælishátíð á þriðjudag, á miðvikudag verður vélin á samskonar hátíð í Kaupmannahöfn, þar verður hún í samflugi með DC-3 vél danska þristavinafélagsins. Síðan verður haldið til Noregs til fundar við norska þristavinafélagið en stefnt er að því að fljúga heim aftur um Bergen og hugsanlega um Færeyjar þann 15. júlí.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.