Innlent

Kviknaði í bíl ferðamanna

Fimm erlendum ferðamönnum og íslenskum ökumanni þeirra brá heldur betur í brún þegar kviknaði í bíl þeirra við Sandskeið eldsnemma í gærmorgun. Ferðamennirnir voru á leið á Keflavíkurflugvöll austan úr Sólheimum í Grímsnesi þar sem þeir höfðu verið gestir á afmælishátíð Sólheima í fyrradag. Kviknaði þá skyndilega í bílnum meðan hann var á ferð en lögreglan í Kópavogi telur að öllum líkindum hafi bensínleiðsla farið í sundur. Slökkviliðið kom á vettvang þegar klukkan var að verða hálf sex en þá var fólkið á bak og burt. Það hafði hringt á leigubíl og haldið áfram leið sinni á flugvöllinn. "Eina sem hægt var að gera var að drífa fólkið áfram út á flugvöll," segir Sigurður ökumaður bílsins sem einnig hélt starfi sínu áfram eins og ekkert hefði í skorist og keyrði tvær ferðir til viðbótar á flugvöllinn í gær með gesti afmælishátíðarinnar. Sigurður segir að snör handtök hafi þurft til að bjarga fólki og farangri en það hafi tekist mjög vel. "Það voru bara sólgleraugu og smotterí sem urðu eftir í bílnum." Slökkviliðinu tókst að ráða niðurlögum eldsins á um hálfri klukkustund en bíllinn er gjörónýtur



Fleiri fréttir

Sjá meira


×