Innlent

Baugur enn í Somerfield viðræðum

Breskir fjölmiðlar telja að ákærur á hendur forsvarsmönnum Baugs þýði að félagið neyðist til að draga sig út úr hópi fjárfesta sem hyggjast festa kaup á stórverslanakeðjunni Somerfield. Forstjóri Baugs, Jón Ásgeir Jóhannesson, reynir nú að draga úr þeim skaða sem Baugsmálið gæti valdið félaginu. Breskir fjölmiðlar birtu í dag fréttir þess efnis að þau félög sem standa að kauptilboði í Somerfield ásamt Baugi, hafa hótað að hætta við tilboð sín, ef Baugur dregur sig ekki út úr hópnum. Ástæðan er yfirvofandi dómsmál á hendur forsvarsmanna Baugs. Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Baugs, vísaði þessu á bug í samtali við fréttastofu í dag. Sagði ekkert félaganna hafa sett fram slíkar kröfur við Baugsmenn. Samkvæmt heimildum Financial Times munu félögin óttast að málið hafi slæm áhrif og að Baugur kunni að eiga í erfiðleikum með að tryggja stuðning banka við kaupin, vegna ákæranna. Blaðamenn The Guardian taka enn dýpra í árinni og undrast af hverju Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs hafi ekki þegar dregið sig út úr kaupendahópnum í Somerfield og telja fullvíst að Baugur verði ekki í hópnum til lengdar. Sjálfur segir Jón Ásgeir að síðustu daga hafi verið fundað með viðskiptamönnum félagsins og fulltrúum banka, farið yfir stöðu mála og útskýrt út á hvað kærumálið gangi. Reynt sé að forða félaginu frá frekara tjóni. Þá sagðist hann enn ekki hafa fengið öll gögn ákæruvaldsins í Baugsmálinu og því vildi hann ekki afhenda fjölmiðlum ákæruna. Ætla má að öllum sakborningunum sex í Baugsmálinu hafi nú verið birt ákæra. Í samtali við fréttastofu sagðist Jóhannes Jónsson stjórnarmaður í Baugi gera ráð fyrir að fá ákæruna í hendur í dag, en þó ekki bíða eftir henni sem jólapakka. Lögmenn hans færu yfir málið, en sjálfur myndi hann áfram einbeita sér að því að selja kjötfars.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×