Innlent

Möguleiki á að riða breiðist út

Brögð eru að því að hestamenn fari illa með fjárréttir og safngirðingar víða um land. Að sögn Ólafs Dýrmundssonar, landnýtingarráðunautar hjá Bændasamtökum Íslands, er þetta mjög áberandi í nágrenni við Reykjavík þar sem stórir hrossahópar eiga leið um og nota grindurnar sem áningarstað yfir nótt. Hann nefnir dæmi um Húsmúlarétt neðan Kolviðarhóls, þar sem umgengin er skárri í ár en fyrri ár, og Fossvallarétt ofan Lækjarbotna þar sem Ólafur segir álagið keyra um þverbak. Ólafur segir skemmdirnar á réttunum geti verið miklar. Bæði sé mikið skilið eftir að rusli og girðingarnar brotnar. Einnig sé mjög slæmt að sjá hey skilið eftir í girðungum en slík umgengni skapi hættu á útbreiðslu á riðu. "Fólkið gefur hestum sínum hey sem hugsanlega getur verið frá riðubæjum. Síðan geta kindurnar komist í heyið sem eftir verður," segir Ólafur. Hann hvetur hestamenn til að koma sér upp eigin áningarstöðum. "Þeir ættu að hætta að nota aðstöðu sem ekki hentar og hestamannafélögin ættu að koma upp aðstöðu sem allir hestamenn geta notað."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×