Lífið

Ofurtrukkar

Bandarískir ofurtrukkar, allt að fimm tonn að þyngd, virðast vera að ryðja sér til rúms sem smartasti heimilisbíllinn hér á landi. Hundruð slíkra bíla hafa verið flutt inn síðustu mánuði og eru þeir flokkaðir sem vörubílar. Svona tryllitæki verða æ algengari sjón, ekki bara á þjóðvegum landsins, heldur þeysist fólk um á slíkum tækjum um götur miðborgarinnar við allskyns snatt. Samkvæmt heimildum eru kaup á slíkum heimilistrukk ekki sálræn uppbót á líkamlegt atgervi heldur er ástæðuna að finna í Íslenskri tollalöggjöf. Ef fluttur er inn venjulegur fólksbíll er greiddur 45 prósenta tollur, en þegar bílarnir eru komnir í þennan stærðarflokk þá dettur hann niður í 13 prósent, fer í flokk með vörubílum, eða þá að tollurinn leggst alveg af ef þyngdin fer yfir fimm tonn. Þetta helst í hendur við lágt gengi bandaríkjadollars og því getur verið dýrara að flytja inn meðal fólksbíl frá Evrópu en svona heimilistrukk. Höfundur bókarninnar Saga bílsins á Íslandi, Sigurður Hreiðar segir segir vissulega dæmi um farartæki af þessari stærðargráðu. Hann segir svona ferlíki hafa verið notuð á áratugunum 1940-50 hér á landi og þá hafi bílarnir jafnvel verið stærri. Samkvæmt upplýsingum frá Bílgreinasambandinu voru um 300 slíkir bílar fluttir inn í lok síðasta árs. Það sem af er þessu ári eru þeir orðnir 350. Ætla má að ríkið verði af yfir einni og hálfri milljón í tekjur af hverjum þessara bíla, miðað við vanalegan fimm milljóna króna jeppa, vegna tollalaganna. Síðustu ár hafa orðin sparneytinn og umhverfisvænn verið notuð við að auglýsa bíla, en þau orð verða líklega ekki notuð yfir amerísku trukkana.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.