Innlent

Hvenær er best að gifta sig?

Það er best að gifta sig 31. júlí, 3. ágúst eða 14. ágúst. Að sama skapi er 10. júlí afleitur dagur til veisluhalda. Það er algengast að fólk láti pússa sig saman um miðjan dag að sumarlagi. Veðurstofan hefur nú gert úttekt á veðrinu einstaka daga að sumarlagi klukkan þrjú eftir hádegi, allt frá árinu 1949, svo að fólk viti nú hvað sagan segir um líkur á góðu veðri á stóra daginn. Góðviðri hefur oftast komið fyrir 14. ágúst á umræddu tímabili. Góðviðri er skilgreint sem minnst ellefu stiga hiti, minna en fimm metrar á sekúndu og ekki má hafa rignt í þrjár klukkustundir. Ef 14. ágúst hentar ekki til brúðkaups er líklega best að veðja á 31. júlí eða 3. ágúst sem eru næstbestu dagarnir. Það er þó ekki nema að jafnaði um fimmta til sjötta hvert ár sem svo vel viðrar á þessum dögum. Það er samt hátíð miðað við 1., 4. og 16. júní en þótt ótrúlegt megi virðast hafa slíkir góðviðrisdagar hreinlega aldrei orðið á þessum dögum undanfarin 55 ár og því líklega best að halda sig bara heima við þessa daga og nota aðra daga til þess að ganga upp að altarinu. Þessir dagar eru samt betri en 10. júlí og 22. ágúst ef það er aðallega rigningin sem menn vilja forðast. Rigning eða súld um miðjan daginn að sumri hefur undanfarin 55 ár verið tíðust þann 10. júlí og ef lagðir eru saman dagar með skúraleiðingum og rigningu eða súld kemur 22. ágúst verst út því að þann dag eru meira en helmingslíkur á úrkomu um miðjan daginn í höfuðborginni eða næsta nágrenni hennar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×